Facebook

Aftur í fréttasafn

miðvikudagur, 3. maí 2017

Framtíðin eykur lánaframboð

Fréttatilkynning frá Framtíðinni, 3. maí 2017

Framtíðin kynnir nú bætt þjónustuframboð og býður upp á almenn lán og húsnæðislán, samhliða því að veita áfram námslán.

Framtíðin lánasjóður hf. hefur frá því snemma árs 2015 veitt námsmönnum framfærslu- og skólagjaldalán við góðar viðtökur. Framtíðin kynnir nú bætt þjónustuframboð og býður upp á almenn lán og húsnæðislán, samhliða því að veita áfram námslán.

Stefna félagins hefur frá upphafi verið að auka þjónustuframboð og vaxa með þarfir neytenda og þróun markaðarins í huga. Fyrst um sinn verða húsnæðislán Framtíðarinnar viðbótarlán sem henta sem viðbót við lán frá lífeyrissjóði eða banka. Almenn lán Framtíðarinnar eru óveðtryggð lán fyrir allt að eina milljón króna.

Þetta skref sem nú er stigið er einnig þáttur í því að þróa Framtíðina áfram sem fjártæknifyrirtæki með fjölbreytt þjónustuframboð. Allt umsóknar- og afgreiðsluferli hjá Framtíðinni fer fram í gegnum netið. Auk þess verður boðið upp á sérsniðna vexti, sem þýðir að vaxtakjör byggjast á lánshæfismati og veðhlutfalli lántaka. Slíkt fyrirkomulag er vel þekkt erlendis og er Framtíðin fyrsta félagið á Íslandi sem mótar starfsemi sína með þessum hætti.

„Framtíðin er kvikt fyrirtæki sem getur brugðist hratt við eftirspurn. Við störfum eingöngu á netinu, erum með litla yfirbyggingu og um margt ólík þeim lánastofnunum sem fólk hefur áður fengið að kynnast. Veiting námslána hefur gengið vel hjá Framtíðinni og eru lántakendur almennt ánægðir með þjónustuna. Það liggur því beint við að veita aðrar tegundir lána. Þróunin á lánamörkuðum erlendis er hröð, nýir aðilar eru að festa sig sessi og það er ekki ólíklegt að markaðurinn hér á landi muni þróast í sömu átt. Við teljum að aukin samkeppni sé af hinu góða fyrir neytendur,“ segir Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar.

Framtíðin lánasjóður hf. er skráð sem lánveitandi hjá Fjármálaeftirlitinu sem heimilar félaginu að veita fasteignalán. Framtíðin er í eigu sjóðs í stýringu hjá GAMMA Capital Management hf. Um er að ræða fagfjárfestasjóð sem er fjármagnaður af fjölbreyttum hópi fagfjárfesta, bæði einstaklingum og stofnanafjárfestum.

Notendaskilmálar Samþykkja