Facebook

Stór hluti af lántökum hefur farið til náms erlendis

Við höfum lánað til náms við nokkra af virtustu háskólum í heimi, svo sem LSE, Cambridge, Columbia, NYU o.fl.

Atriði sem nauðsynlegt er að hafa í tengslum við umsókn í skóla erlendis.

Það kallar á góða skipulagningu að leggja land undir fót og hefja nám í nýju landi og undirbúningurinn getur verið langur og flókinn. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga áður en farið er af stað.

Þegar þú kynnir þér skóla er mikilvægt að gæta að umsóknarfresti. Umsóknarfrestur fyrir skóla í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu rennur t.d. oftast út ári áður en nám á að hefjast. Skóla á Norðurlöndunum þarf gjarnan að sækja um í mars eða apríl ef nám á að hefjast um haust sama ár. Í Bretlandi rennur umsóknarfrestur jafnan út í október eða janúar ef ætlunin er að hefja nám haustið eftir.

Vandaðu alla þætti umsóknarinnar. Góðir skólar gera miklar kröfur og gefa engan afslátt; allir pappírar þurfa að vera rétt útfylltir, öll gögn sem beðið er um þurfa að fylgja o.s.frv. Í mörgum skólum er farið fram á meðmæli frá nokkrum einstaklingum, t.d. kennara, vinnuveitenda eða samstarfsaðila. Vandaðu valið þegar kemur að því að biðja um meðmæli og hugaðu að því að fá sanngjarna umsögn.

Hugaðu líka vel að því hvað námið kostar: skólagjöld, bækur, aðstöðugjöld og önnur gjöld. Hjá flestum virtari og betri skólum eru upplýsingar um kostnað mjög aðgengilegar. Hafðu í huga að gjarnan þarf að greiða óendurkræft staðfestingargjald áður en nám hefst. Þá er einnig algengt að farið sé fram á umsóknargjald samhliða umsóknarferlinu.

Á Íslandi eru starfrækt Samtök íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) sem veita aðstoð og upplýsingar um nám erlendis.

Síðast en ekki síst skaltu huga vel að fjármögnunarmöguleikum, hvort sem er í formi styrkja, lána eða hvoru tveggja.

Upplýsingar um tungumálapróf eru í flestum tilvikum aðgengilegar á vefsvæði skólanna.

TOEFL
TOEFL er enskupróf fyrir alla umsækjendur skóla þar sem kennsla fer fram á ensku. Skráning fer fram í gegnum skráningarvef þeirra. Nauðsynlegt er að skrá sig sjö dögum fyrir áætlaðan prófdag.

GRE Graduate records examination
Ætlað þeim sem hyggja á framhaldsnám (Graduate nám) í Bandaríkjunum. Háskóli Íslands sér um framkvæmd prófsins.

GMAT Graduate Management Admissions Test
Ætlað þeim sem hyggja á MBA nám. Hægt er að taka GMAT prófið hjá Tölvu- og verkfræðiþjónustunni. Allar nánari upplýsingar er að fá hjá Tölvu- og verkfræðiþjónustunni í síma 520 9000.

DELF og DALF
DELF og DALF prófin eru sambærileg TOEFL, GMAT og GRE prófunum en þeirra er krafist af frönskum háskólum. Prófin fara fram hjá Alliance Française og þá gjarnan í mars á ári hverju.

TestDaF Test fur Deutsch als Fremdsprache
Alþjóðlegt þýskupróf, fyrir þá sem ætla í háskólanám til Þýskalands. Prófið er haldið tvisvar á ári hjá Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar má finna á vef Tungumálamiðstöðvar H.Í. eða í síma 525 4593.

SAT
SAT er inntökupróf fyrir alla þá sem hyggja á grunnnám í Bandaríkjunum. Verzlunarskóli Íslands heldur SAT prófin á Íslandi og fer skráning fram á vef SAT með fjögurra vikna fyrirvara.

ACT
ACT er annað inntökupróf í grunnháskólanám í Bandaríkjunum. ACT er þekkingarpróf í námsefni á High school stigi og er prófað í stærðfræði, líffræði, eðlisfræði og ensku. Skráning í prófið fer fram á vef ACT með fimm vikna fyrirvara. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði heldur prófið.

Húsnæði í nýju landi og búferlaflutningar.

Kynntu þér hvaða húsnæðiskostir standa þér til boða, t.a.m. leiguíbúðir eða vist á stúdentagörðum.

Kynntu þér háskólasvæðið og borgina sem þú hyggst flytja til. Hafðu samband við Íslendinga sem eru eða hafa verið í námi við sama skóla eða á sama svæði og leitaðu ráða hjá þeim.

Kynntu þér hvað flutningur á búslóð kostar og aflaðu upplýsinga um leik- eða grunnskóla ef þú átt börn.

Hægt er að sækja um ýmsa styrki vegna náms á erlendri grundu. Upplýsingastofa um nám erlendis veitir fræðslu um styrki og flokkar þá eftir löndum, greinum og tegundum.

Vegabréfsáritanir fyrir alla fjölskylduna, tryggingar og bólusetningar.

Þú gætir þurft að endurnýja vegabréfið og fá rétta vegabréfsáritun þar sem það á við.

Allir þeir sem fara til náms í Bandaríkjunum þurfa að sækja um sérstaka vegabréfsáritun í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík. Einnig þarf að huga að vegabréfsáritun fyrir fjölskyldumeðlimi, enda þurfa maki og börn sérstaka vegabréfsáritun sem ætluð er fjölskyldum námsmanna. Nánari upplýsingar um vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna má finna á vefsvæði sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Ef þú ert á leiðinni í nám til Norðurlandanna þarftu að flytja lögheimili þitt til viðkomandi lands og fá samnorrænt flutningsvottorð sem fæst hjá Þjóðskrá. Þar fást einnig aðrar nauðsynlegar upplýsingar um búferlaflutninga á milli landa.

Hugaðu vel að tryggingum, en þær eru misjafnar eftir því hvort flutt er til Bandaríkjanna, Norðurlanda, annarra ESB ríkja eða út fyrir EES svæðið. Leitaðu upplýsinga hjá tryggingafyrirtæki þínu sem og Tryggingastofnun ríkisins og fáðu nauðsynleg gögn.

Þegar brottfarartími nálgast skaltu staðfesta húsnæði.

Hafðu í huga að vegna gjaldeyrishafta getur tekið tíma að millifæra fjármagn á milli landa.

Fáðu bólusetningarskírteini og allar nauðsynlegar sprautur hjá heimilislækni.

Settu þig samband við tengilið skólans fyrir erlenda stúdenta.