Facebook

Svör við algengum spurningum

Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu þá geturðu sent okkur fyrirspurn á netfangið framtidin@framtidin.is og við höfum samband við fyrsta tækifæri.

Hve mikið get ég fengið lánað í heildina hjá Framtíðinni?

Lágmarksfjárhæð námsláns hjá Framtíðinni er 250 þúsund krónur og hámarksfjárhæð er 13 milljónir króna. Lánveiting er þó ávallt háð samþykki lánanefndar Framtíðarinnar og getur samþykkt lánsfjárhæð í ákveðnum tilvikum verið lægri en sú fjárhæð sem sótt er um.

Get ég fengið lán hjá Framtíðinni þó ég sé með lán frá LÍN?

Já, vissulega. Við teljum lán frá LÍN vera einkar góða leið fyrir námsmenn til að fjármagna menntun sína og hvetjum þá til að sækja um það fyrst. Hins vegar getur háskólanám verið kostnaðarsamt, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk og þá sem hyggja á nám erlendis. Auk þess eiga námsmenn sem koma af vinnumarkaði eða eru ekki í fullu námi oft ekki kost á fullu láni frá LÍN. Við slíkar aðstæður getur námslán frá Framtíðinni hentað vel.

Hvernig eru lánin greidd út?

Námslán eru að jafnaði lögð inn á þann reikning sem námsmaður tiltekur í umsóknarferlinu. Framfærsla er greidd út í upphafi hvers mánaðar og skólagjaldalán eru greidd á þeim degi sem ganga þarf frá skólagjaldagreiðslu til viðkomandi skóla. Í ákveðnum tilvikum greiðir Framtíðin skólagjaldalán beint til viðkomandi skóla en þetta á við í tilviki Keilis, NTV og Promennt. 

Hvenær þarf ég að byrja að borga af láninu?

Endurgreiðslur hefjast ekki fyrr en að jafnaði 3-6 mánuðum eftir námslok. Í kjölfarið er lánið greitt til baka með mánaðarlegum jöfnum greiðslum (annuitet) yfir allt að 12 ára tímabil. Hægt er að velja um styttra endurgreiðslutímabil auk þess sem það má alltaf greiða inn á lánið án kostnaðar.

Get ég greitt lánið upp?

Já, vissulega. Námsmönnum er frjálst að greiða upp lánið hvenær sem er, að fullu eða að hluta til. Engin gjöld eru tekin fyrir uppgreiðslur.

Til að greiða inn á námslán millifærir þú einfaldlega inn á reikning nr. 0133-26-013385, kt. 611114-0790. Athugið að nauðsynlegt er að senda kvittun fyrir innborguninni á netfangið framtidin@framtidin.is.

Hvað ef ég skipti um nám eða skóla?

Slík tilvik verða skoðuð og metin hverju sinni af starfsmönnum Framtíðarinnar. Við hvetjum námsmenn til að hafa samband umsvifalaust ef aðstæður breytast.

Hvað ef ég hætti í náminu?

Þá verða ekki frekari útgreiðslur af hálfu Framtíðarinnar og afborganir af lánunum hefjast strax. Við slíkar aðstæður vill Framtíðin eindregið hvetja námsmenn til þess að hafa samband sem fyrst svo hægt sé að greiða úr málum á farsælan hátt.

Hvers konar nám er lánshæft?

Nám í öllum háskólum á Íslandi er lánshæft til framfærslu- og skólagjalda. Annað nám á Íslandi sem einnig er lánshæft er endurmenntun og nám með vinnu. Framtíðin veitir auk þess námslán til framfærslu- og skólagjalda við alþjóðlega viðurkennda háskóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsnáms og háskólar á Íslandi. Þó skal bent á að lánanefnd Framtíðarinnar fer yfir allar umsóknir og ekki er sjálfgefið að umsókn sé samþykkt þótt námið teljist lánshæft. Ýmsir aðrir þættir hafa áhrif á ákvörðunina, svo sem skuldastaða, lánshæfiseinkunn, fyrri starfsreynsla, námsárangur og áætlaðar tekjur eftir útskrift. 

Hverjir geta sótt um lán?

Allir námsmenn eldri en 20 ára sem lokið hafa fyrsta ári í grunnnámi háskóla og eru í eða stefna á lánshæft nám geta sótt um.

Hvernig er umsóknarferlið?

Sótt er um lán í gegnum netið á umsóknarvef Framtíðarinnar. Við nýskráningu er notast við rafræn skilríki. Ef þú átt ekki slík skilríki sendum við lykilorð í netbankann þinn og eftir það getur þú hafist handa við umsóknina. Upplýsingar sem þú þarft að gefa upp þegar þú fyllir út umsóknina eru t.d. tegund láns sem sótt er um, áætlað nám, fjárhagsupplýsingar og fleira.

Hægt er að vista umsóknina og halda áfram með hana síðar, til dæmis ef afla þarf einhverra gagna í millitíðinni. Eftir að umsókn er send inn er hún yfirfarin og ákvörðun tekin um lánveitingu. Ef umsóknin ser samþykkt færðu svar um skilyrt samþykki innan tveggja vikna og beiðni um viðbótargögn til að staðfesta upplýsingar úr umsókn.

Þarf ég að vera með ábyrgðarmann eða veð til að geta fengið lán?

Almennt er ekki gerð krafa um ábyrgðarmann eða veð fyrir námsláni. Í ákveðnum tilfellum getur verið óskað eftir ábyrgðarmanni til að uppfylla skilyrði fyrir láni.

Þarf ég að senda ykkur upplýsingar um námsframvindu?

Ef þú tekur námslán hjá okkur og það er lengra en ein önn þar til námi lýkur og afborganir hefjast biðjum við þig um að senda inn upplýsingar um námsframvindu á heimasvæði þitt á vef Framtíðarinnar fram að námslokum. Lán vegna vorannar eru greidd út þegar námsframvinda haustannar liggur fyrir.

Hafa tekjur áhrif á lán?

Nei, tekjur hafa ekki áhrif á námslán hjá Framtíðinni.

Hvað er lántökugjaldið hátt?

Lántakar greiða 3,95% lántökugjald sem leggst við höfuðstól lánsins. Við höfuðstól leggst einnig skjalagerðar- og greiðslumatsgjald kr. 15.400.- 

Get ég frestað greiðslum ef ég er til dæmis tímabundið án atvinnu?

Já, þú getur sótt um frestun á greiðslum í 3 mánuði. Á því tímabili sem greiðsluhléið stendur yfir leggjast ógreiddir vextir við höfuðstól. Hver beiðni um skilmálabreytingu er skoðuð sérstaklega og getur Framtíðin farið fram á að fá afhent gögn sem sýna fram á ástæður frestunar afborgana. 

Greiða þarf skilmálabreytingargjald vegna vinnu við greiðsluhlé samkvæmt verðskrá Framtíðarinnar. Sjá nánar hér.

Get ég sótt um aftur ef ég fæ neitun?

Já, Framtíðin hvetur þá sem ekki hljóta samþykki til þess að sækja um síðar á námsferlinum.

Eru gerðar kröfur um lágmarks námsframvindu?

Framtíðin er ekki með fastmótaðar kröfur um námsframvindu. Við gerum okkur grein fyrir því að aðstæður einstaklinga eru ólíkar og metum því hvert tilvik fyrir sig.  

Á ég möguleika á námsláni ef ég er skráð(ur) á vanskilaskrá?

Ekki eru veitt lán til einstaklinga sem skráðir eru á vanskilaskrá.

Á hvaða kjörum eru námslánin?

Við bjóðum upp á tvær tegundir námslána: Verðtryggð eða óverðtryggð. Vextir taka mið af vaxtatöflu Framtíðarinnar hverju sinni, sjá nánar um lánskjör hér.

Get ég fengið frestun á afborgunum ef ég ákveð að fara í framhaldsnám eftir grunnnámið?

Hægt er að sækja um frestun á afborgunum ef þú ákveður að fara í framhaldsnám að loknu grunnnámi sem þú hefur tekið lán fyrir. Hvert tilvik fyrir sig er skoðað sérstaklega og metið hverju sinni. Til þess að sækja um frestun þarf að senda póst á netfangið framtidin@framtidin.is eða skilaboð í þræði inni á umsóknarvefnum. Þar þarf að greina frá því framhaldsnámi sem til stendur að stunda og staðfestingu frá skóla um skólavist ef við á. 

Framtíðin hvetur námsmenn eindregið til að mennta sig frekar að loknu grunnnámi.

Hvernig er lánafyrirkomulagið vegna flugnáms hjá Keili?

Fyrirkomulagið er þannig að einungis er unnt að sækja um lán fyrir síðustu greiðslu skólagjalda. Athugið að ekki er lánað fyrir framfærslu í flugnámi.