Facebook

Aftur í fréttasafn

föstudagur, 16. júní 2017

Nútímalegt lánafyrirtæki

Viðtal úr Fyrsta heimilið, fylgiriti Fréttablaðsins, þann 16. júní 2017

Framtíðin er lánafyrirtæki sem var stofnað með það að markmiði að bjóða upp á nýjar vörur á íslenskum lánamarkaði sem einfalt og þægilegt er að nálgast. Fyrirtækið býður upp á námslán, húsnæðislán og almenn lán.

„Við byrjuðum að veita námslán árið 2015 en nýlega víkkuðum við starfsemina út og fórum að veita húsnæðislán ásamt almennum lánum til ýmissa nota,“ segir framkvæmdastjórinn Hrólfur Andri Tómasson. „Við leggjum okkur fram við að veita framúrskarandi þjónustu og samkeppnishæf kjör.“

Húsnæðislánin eru hugsuð sem viðbótarlán. „Fólk tekur lán hjá lífeyrissjóði eða banka upp að því marki sem það er hægt. Lífeyrissjóðirnir lána til dæmis allt að 75 prósent af kaupverði eignar og bankarnir 80 til 85 prósent. Hjá okkur er svo hægt að fá viðbótarlán upp í 90 prósent af kaupverði eignarinnar,“ útskýrir Hrólfur, en gerð er krafa um að lágmarki 10 prósent eigið fé.

En fyrir hverja eru húsnæðislánin hugsuð? „Þau standa öllum til boða en við höfum ekki síst verið að horfa til yngra fólks og fyrstu kaupenda,“ segir Hrólfur og tekur dæmi. „Það er til dæmis mikið af ungu fólki með góðar tekjur sem vantar þessar sjö til átta milljónir sem oft þarf til að kaupa íbúð og komast inn á markaðinn. Þá getum við komið að gagni.“

Framtíðin opnaði fyrir húsnæðislánin og almennu lánin í byrjun maí og hafa viðtökurnar að sögn Hrólfs verið vonum framar. „Síminn hefur ekki stoppað og við höfum þegar bætt við okkur mannskap til að sinna fyrirspurnum og umsóknum.“ Að sögn Hrólfs eru almennu lánin óverðtryggð upp að einni milljón. Þau má til dæmis nota til bílakaupa, endurbóta eða til að borga niður aðrar skuldir. „Fólk sækir um á netinu, umsóknarferlið er 100 prósent rafrænt og svarið berst á örfáum mínútum.“

Námslánin sem Framtíðin hefur veitt síðastliðin tvö ár eru fyrst og fremst sem hugsuð sem viðbót við lán frá LÍN. „Hugmyndin er að fólk fari fyrst til LÍN enda eru þau lán á mjög hagstæðum vöxtum. Þeir sem hins vegar eiga ekki rétt á láni frá LÍN, t.d. út af tekjuskerðingu, geta sótt um hjá okkur,“ segir Hrólfur en ólíkt bönkum sem veita námsmönnum yfirdrátt í slíkum tilfellum þarf ekki að byrja að greiða af námslánum Framtíðarinnar fyrr en sex mánuðum eftir að námi lýkur. Að sögn Hrólfs getur fólk sem er í dýru námi erlendis líka þurft á viðbótarláni að halda þar sem LÍN lánar aðeins upp að ákveðnu marki. Þá komi Framtíðin sér vel.

Öll samskipti á netinu

Öll samskipti við Framtíðina fara fram í gegnum netið og í gegnum síma. „Fólk sækir um öll lán á umsóknarvefnum okkar og skilar gögnum rafrænt. Öll samskipti fara svo fram í gegnum net og síma. Fólk þarf því aldrei að koma til okkar sem mörgum þykir kostur,“ segir Hrólfur. Hann segir æ fleiri orðna vana því að afgreiða sig með ýmiskonar varning upp á eigin spýtur á netinu. „Það á enn sem komið er kannski meira við um ungt fólk en margir sem eldri eru hafa ekki síður komist upp á lag með það. Markmiðið okkar er að vefurinn sé það einfaldur að fólk geti þjónustað sig sjálft þar inni. Ef einhverjar spurningar vakna þá erum við hins vegar fljót að svara og leggjum okkur fram við að veita hraða og persónulega þjónustu.“

Framtíðin á sér að sögn Hrólfs ýmsar erlendar fyrirmyndir, m.a. frá Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum, en í þessum löndum hafa lánveitingar í auknum mæli verið að færast frá bönkum til sérhæfðra tæknifyrirtækja. „Við horfum meðal annars til fyrirtækis í Kaliforníu sem heitir SoFi en það byrjaði einmitt að veita námslán og færði sig svo yfir í önnur lán. Þá má nefna að þriðji stærsti fasteignalánveitandinn í Bandaríkjunum starfar eingöngu á netinu. Við erum því ekki að finna upp hjólið heldur fylgjumst við vel með því sem er að gerast erlendis og leitumst við að bjóða upp á nýjungar hér heima.

Notendaskilmálar Samþykkja