Facebook

Aftur í fréttasafn

fimmtudagur, 1. júní 2017

Stefna á áframhaldandi vöxt

Viðtal úr Frumkvöðlum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, þann 1. júní 2017

Tímaritið Frumkvöðlar, sem Viðskiptablaðið gefur út, birti á dögunum viðtal við framkvæmdastjóra Framtíðarinnar um þær breytingar sem eru að eiga sér stað á fjármálamarkaði og þær nýjungar sem félagið býður upp á.

Lánasjóðurinn Framtíðin er nútímalegt fjármálafyrirtæki sem starfar á íslenskum lánamarkaði. Fyrirtækið hefur frá árinu 2015 boðið upp á námslán, en á þessu ári bættust húsnæðislán og almenn lán við vöruframboð fyrirtækisins. Vextir Framtíðarinnar eru sérsniðnir að aðstæðum lántaka og fyrirtækið starfar eingöngu á netinu. Stefnt er að því að útvíkka starfsemina á komandi misserum.

„Við bjóðum upp á nýjar vörur fyrir neytendur á íslenskum lánamarkaði,“ segir Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar. „Við reynum að skynja eftirspurnina og koma með það sem ekki er í boði á markaðnum. Þá viljum við að þjónustan okkar sé einföld og þægileg. Starfsemi okkar er eingöngu rafræn. Við styðjumst við heimasíðuna okkar og nýjungar í tækni á borð við rafræn skilríki. Svo metum við umsóknir út frá ýmsum gögnum og bjóðum upp á lán sem eru sérsniðin að aðstæðum lántaka.“

Lánasjóðurinn er fyrst og fremst fjármagnaður af skuldabréfasjóðum GAMMA Capital Management.

Brúa bilið

Framtíðin hefur frá árinu 2015 boðið námsmönnum upp á framfærslu- og skólagjaldalán.

„Við sáum að það var vöntun á lánum fyrir námsmenn sem gátu ekki fengið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Fólk vantar oft lán til viðbótar við námslánið frá LÍN, hvort sem um er að ræða nám á Íslandi eða erlendis. Svo eru fjölmargir sem hafa verið á vinnumarkaði og setjast aftur á skólabekk, en eiga erfitt með að fá lán vegna tekjuskerðingar LÍN. Þarna sáum við markað. Við komum með viðbótarlán og þá nýjung að fólk þurfi ekki að byrja að greiða niður lánið fyrr en sex mánuðum eftir námslok og getur greitt það til baka á 12 árum. Við metum einnig lánshæfi umsækjenda út frá námsárangri, lánshæfismati, framtíðaráætlunum og fleiri þáttum. Þetta er því sérsniðin vara fyrir námsmenn,“ segir Hrólfur, en Framtíðin hefur lánað til um það bil 500 námsmanna síðan 2015.

Þá hefur Framtíðin þróað nýjar vörur sem kynntar voru til leiks á þessu ári. „Á þessu ári fórum við að bjóða upp á almenn lán og húsnæðislán. Almennu lánin eru óverðtryggð og ekki tryggð með veði. Við ákveðum vextina og lánsupphæð út frá lánshæfiseinkunn CreditInfo. Það er nýjung á íslenskum lánamarkaði en ákvörðun vaxta samkvæmt lánshæfiseinkunn er eitthvað sem er algengt erlendis. Síðan leituðum við að einhverju sem var ekki í boði á íbúðalánamarkaðnum, eins og viðbótarlán. Fólk getur fengið lán hjá lífeyrissjóði sem er 75% af kaupverði fasteignar og fengið restina hjá okkur, en við bjóðum upp á lán sem eru 90% af kaupverðinu. Þetta er nýjung, því við bjóðum upp á stök viðbótarlán óháð því hverjir eru að lána á fyrsta veðrétti. Svo er það önnur nýjung að vextirnir á húsnæðislánunum, sem eru verðtryggð og til allt að 25 ára, ráðast af því hvað þú leggur fram mikið eigið fé. Vextirnir lækka eftir því sem lántakandi leggur fram meira eigið fé,“ segir Hrólfur.

Finna ekki upp hjólið

Viðskiptamódel Framtíðarinnar byggir að mestu leyti á erlendri fyrirmynd. „Það hafa verið að eiga sér stað miklar breytingar á fjármálamarkaði erlendis en einnig núna á Íslandi. Lánveitingar eru mikið að færast frá bönkum og yfir til sérhæfðra tæknifyrirtækja. Við erum ekki að finna upp hjólið heldur erum við að færa þetta viðskiptamódel yfir á íslenska lánamarkaðinn, og núna er rétti tíminn til að gera það. Svo horfum við til afurða sem eru til erlendis en eru ekki til hér á landi. Við erum með einn stjórnarmann sem er meðeigandi í bandarísku fjárfestingarfélagi sem fjárfestir í fyrirtækjum á borð við Better Mortgage, sem lánar í gegnum netið, og námslánafyrirtækið Future Finance, og erum því með góða tengingu við það sem er að gerast erlendis. Svo horfum til fyrirtækja á borð við SoFi, sem færðu sig úr því að veita námslán til nemenda við Stanford yfir í að veita meðal annars húsnæðislán, almenn lán og eignastýringu, sem og þriðja stærsta fasteignalánveitanda Bandaríkjanna, Rocket Mortgage, sem lánar eingöngu á netinu. Þetta eru dæmi um það hvernig þróunin er erlendis.“

Í stanslausri þróun

Hrólfur segir lánasjóðinn aðeins vera að taka sín fyrstu skref og að fyrirtækið stefni að því að útvíkka starfsemina. „Við erum í stanslausri þróun og erum alltaf að leita að nýjum tækifærum. Það er mikil stærðarhagkvæmni fólgin í því að stækka, þar sem grunnurinn okkar – tæknin og sjálfvirknin – gerir okkur kleift að stækka án þess að opna útibú eða ráða mikið fleira starfsfólk. Svo er aldrei að vita hvort við komum með nýjar vörur, mögulega bílalán, kreditkort og eignastýringu. Við erum bara að taka okkar fyrstu skref og ætlum okkur að vaxa áfram.“

Notendaskilmálar Samþykkja