Fréttir og fréttatilkynningar

Hér má finna yfirlit yfir það helsta sem hefur dregið á daga Framtíðarinnar.

Nútímalegt lánafyrirtæki

16. júní 2017

Framtíðin er lánafyrirtæki sem var stofnað með það að markmiði að bjóða upp á nýjar vörur á íslenskum lánamarkaði sem einfalt og þægilegt er að nálgast. Fyrirtækið býður upp á námslán, húsnæðislán og almenn lán.

„Við byrjuðum að veita námslán árið 2015 en nýlega víkkuðum við starfsemina út og fórum að veita húsnæðislán ásamt almennum lánum til ýmissa nota,“ segir framkvæmdastjórinn Hrólfur Andri Tómasson. „Við leggjum okkur fram við að veita framúrskarandi þjónustu og samkeppnishæf kjör.“

Húsnæðislánin eru hugsuð sem viðbótarlán. „Fólk tekur lán hjá lífeyrissjóði eða banka upp að því marki sem það er hægt. Lífeyrissjóðirnir lána til dæmis allt að 75 prósent af kaupverði eignar og bankarnir 80 til 85 prósent. Hjá okkur er svo hægt að fá viðbótarlán upp í 90 prósent af kaupverði eignarinnar,“ útskýrir Hrólfur, en gerð er krafa um að lágmarki 10 prósent eigið fé.

En fyrir hverja eru húsnæðislánin hugsuð? „Þau standa öllum til boða en við höfum ekki síst verið að horfa til yngra fólks og fyrstu kaupenda,“ segir Hrólfur og tekur dæmi. „Það er til dæmis mikið af ungu fólki með góðar tekjur sem vantar þessar sjö til átta milljónir sem oft þarf til að kaupa íbúð og komast inn á markaðinn. Þá getum við komið að gagni.“

Framtíðin opnaði fyrir húsnæðislánin og almennu lánin í byrjun maí og hafa viðtökurnar að sögn Hrólfs verið vonum framar. „Síminn hefur ekki stoppað og við höfum þegar bætt við okkur mannskap til að sinna fyrirspurnum og umsóknum.“ Að sögn Hrólfs eru almennu lánin óverðtryggð upp að einni milljón. Þau má til dæmis nota til bílakaupa, endurbóta eða til að borga niður aðrar skuldir. „Fólk sækir um á netinu, umsóknarferlið er 100 prósent rafrænt og svarið berst á örfáum mínútum.“

Námslánin sem Framtíðin hefur veitt síðastliðin tvö ár eru fyrst og fremst sem hugsuð sem viðbót við lán frá LÍN. „Hugmyndin er að fólk fari fyrst til LÍN enda eru þau lán á mjög hagstæðum vöxtum. Þeir sem hins vegar eiga ekki rétt á láni frá LÍN, t.d. út af tekjuskerðingu, geta sótt um hjá okkur,“ segir Hrólfur en ólíkt bönkum sem veita námsmönnum yfirdrátt í slíkum tilfellum þarf ekki að byrja að greiða af námslánum Framtíðarinnar fyrr en sex mánuðum eftir að námi lýkur. Að sögn Hrólfs getur fólk sem er í dýru námi erlendis líka þurft á viðbótarláni að halda þar sem LÍN lánar aðeins upp að ákveðnu marki. Þá komi Framtíðin sér vel.

Öll samskipti á netinu

Öll samskipti við Framtíðina fara fram í gegnum netið og í gegnum síma. „Fólk sækir um öll lán á umsóknarvefnum okkar og skilar gögnum rafrænt. Öll samskipti fara svo fram í gegnum net og síma. Fólk þarf því aldrei að koma til okkar sem mörgum þykir kostur,“ segir Hrólfur. Hann segir æ fleiri orðna vana því að afgreiða sig með ýmiskonar varning upp á eigin spýtur á netinu. „Það á enn sem komið er kannski meira við um ungt fólk en margir sem eldri eru hafa ekki síður komist upp á lag með það. Markmiðið okkar er að vefurinn sé það einfaldur að fólk geti þjónustað sig sjálft þar inni. Ef einhverjar spurningar vakna þá erum við hins vegar fljót að svara og leggjum okkur fram við að veita hraða og persónulega þjónustu.“

Framtíðin á sér að sögn Hrólfs ýmsar erlendar fyrirmyndir, m.a. frá Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum, en í þessum löndum hafa lánveitingar í auknum mæli verið að færast frá bönkum til sérhæfðra tæknifyrirtækja. „Við horfum meðal annars til fyrirtækis í Kaliforníu sem heitir SoFi en það byrjaði einmitt að veita námslán og færði sig svo yfir í önnur lán. Þá má nefna að þriðji stærsti fasteignalánveitandinn í Bandaríkjunum starfar eingöngu á netinu. Við erum því ekki að finna upp hjólið heldur fylgjumst við vel með því sem er að gerast erlendis og leitumst við að bjóða upp á nýjungar hér heima.

Viðtalið birtist í Fyrsta heimilið, fylgiriti Fréttablaðsins, þann 16. júní 2017

Stefna á áframhaldandi vöxt

1. júní 2017

Tímaritið Frumkvöðlar, sem Viðskiptablaðið gefur út, birti á dögunum viðtal við framkvæmdastjóra Framtíðarinnar um þær breytingar sem eru að eiga sér stað á fjármálamarkaði og þær nýjungar sem félagið býður upp á

Lánasjóðurinn Framtíðin er nútímalegt fjármálafyrirtæki sem starfar á íslenskum lánamarkaði. Fyrirtækið hefur frá árinu 2015 boðið upp á námslán, en á þessu ári bættust húsnæðislán og almenn lán við vöruframboð fyrirtækisins. Vextir Framtíðarinnar eru sérsniðnir að aðstæðum lántaka og fyrirtækið starfar eingöngu á netinu. Stefnt er að því að útvíkka starfsemina á komandi misserum.

„Við bjóðum upp á nýjar vörur fyrir neytendur á íslenskum lánamarkaði,“ segir Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar. „Við reynum að skynja eftirspurnina og koma með það sem ekki er í boði á markaðnum. Þá viljum við að þjónustan okkar sé einföld og þægileg. Starfsemi okkar er eingöngu rafræn. Við styðjumst við heimasíðuna okkar og nýjungar í tækni á borð við rafræn skilríki. Svo metum við umsóknir út frá ýmsum gögnum og bjóðum upp á lán sem eru sérsniðin að aðstæðum lántaka.“

Lánasjóðurinn er fyrst og fremst fjármagnaður af skuldabréfasjóðum GAMMA Capital Management.


Brúa bilið

Framtíðin hefur frá árinu 2015 boðið námsmönnum upp á framfærslu- og skólagjaldalán.

„Við sáum að það var vöntun á lánum fyrir námsmenn sem gátu ekki fengið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Fólk vantar oft lán til viðbótar við námslánið frá LÍN, hvort sem um er að ræða nám á Íslandi eða erlendis. Svo eru fjölmargir sem hafa verið á vinnumarkaði og setjast aftur á skólabekk, en eiga erfitt með að fá lán vegna tekjuskerðingar LÍN. Þarna sáum við markað. Við komum með viðbótarlán og þá nýjung að fólk þurfi ekki að byrja að greiða niður lánið fyrr en sex mánuðum eftir námslok og getur greitt það til baka á 12 árum. Við metum einnig lánshæfi umsækjenda út frá námsárangri, lánshæfismati, framtíðaráætlunum og fleiri þáttum. Þetta er því sérsniðin vara fyrir námsmenn,“ segir Hrólfur, en Framtíðin hefur lánað til um það bil 500 námsmanna síðan 2015.

Þá hefur Framtíðin þróað nýjar vörur sem kynntar voru til leiks á þessu ári. „Á þessu ári fórum við að bjóða upp á almenn lán og húsnæðislán. Almennu lánin eru óverðtryggð og ekki tryggð með veði. Við ákveðum vextina og lánsupphæð út frá lánshæfiseinkunn CreditInfo. Það er nýjung á íslenskum lánamarkaði en ákvörðun vaxta samkvæmt lánshæfiseinkunn er eitthvað sem er algengt erlendis. Síðan leituðum við að einhverju sem var ekki í boði á íbúðalánamarkaðnum, eins og viðbótarlán. Fólk getur fengið lán hjá lífeyrissjóði sem er 75% af kaupverði fasteignar og fengið restina hjá okkur, en við bjóðum upp á lán sem eru 90% af kaupverðinu. Þetta er nýjung, því við bjóðum upp á stök viðbótarlán óháð því hverjir eru að lána á fyrsta veðrétti. Svo er það önnur nýjung að vextirnir á húsnæðislánunum, sem eru verðtryggð og til allt að 25 ára, ráðast af því hvað þú leggur fram mikið eigið fé. Vextirnir lækka eftir því sem lántakandi leggur fram meira eigið fé,“ segir Hrólfur.

Finna ekki upp hjólið

Viðskiptamódel Framtíðarinnar byggir að mestu leyti á erlendri fyrirmynd. „Það hafa verið að eiga sér stað miklar breytingar á fjármálamarkaði erlendis en einnig núna á Íslandi. Lánveitingar eru mikið að færast frá bönkum og yfir til sérhæfðra tæknifyrirtækja. Við erum ekki að finna upp hjólið heldur erum við að færa þetta viðskiptamódel yfir á íslenska lánamarkaðinn, og núna er rétti tíminn til að gera það. Svo horfum við til afurða sem eru til erlendis en eru ekki til hér á landi. Við erum með einn stjórnarmann sem er meðeigandi í bandarísku fjárfestingarfélagi sem fjárfestir í fyrirtækjum á borð við Better Mortgage, sem lánar í gegnum netið, og námslánafyrirtækið Future Finance, og erum því með góða tengingu við það sem er að gerast erlendis. Svo horfum til fyrirtækja á borð við SoFi, sem færðu sig úr því að veita námslán til nemenda við Stanford yfir í að veita meðal annars húsnæðislán, almenn lán og eignastýringu, sem og þriðja stærsta fasteignalánveitanda Bandaríkjanna, Rocket Mortgage, sem lánar eingöngu á netinu. Þetta eru dæmi um það hvernig þróunin er erlendis.“

Í stanslausri þróun

Hrólfur segir lánasjóðinn aðeins vera að taka sín fyrstu skref og að fyrirtækið stefni að því að útvíkka starfsemina. „Við erum í stanslausri þróun og erum alltaf að leita að nýjum tækifærum. Það er mikil stærðarhagkvæmni fólgin í því að stækka, þar sem grunnurinn okkar – tæknin og sjálfvirknin – gerir okkur kleift að stækka án þess að opna útibú eða ráða mikið fleira starfsfólk. Svo er aldrei að vita hvort við komum með nýjar vörur, mögulega bílalán, kreditkort og eignastýringu. Við erum bara að taka okkar fyrstu skref og ætlum okkur að vaxa áfram.“

Viðtalið birtist í Frumkvöðlum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, þann 1. júní 2017

Framtíðin eykur lánaframboð

3. maí 2017

 

Framtíðin lánasjóður hf. hefur frá því snemma árs 2015 veitt námsmönnum framfærslu- og skólagjaldalán við góðar viðtökur. Framtíðin kynnir nú bætt þjónustuframboð og býður upp á almenn lán og húsnæðislán, samhliða því að veita áfram námslán. Stefna félagins hefur frá upphafi verið að auka þjónustuframboð og vaxa með þarfir neytenda og þróun markaðarins í huga. Fyrst um sinn verða húsnæðislán Framtíðarinnar viðbótarlán sem henta sem viðbót við lán frá lífeyrissjóði eða banka. Almenn lán Framtíðarinnar eru óveðtryggð lán fyrir allt að eina milljón króna.

Þetta skref sem nú er stigið er einnig þáttur í því að þróa Framtíðina áfram sem fjártæknifyrirtæki með fjölbreytt þjónustuframboð. Allt umsóknar- og afgreiðsluferli hjá Framtíðinni fer fram í gegnum netið. Auk þess verður boðið upp á sérsniðna vexti, sem þýðir að vaxtakjör byggjast á lánshæfismati og veðhlutfalli lántaka. Slíkt fyrirkomulag er vel þekkt erlendis og er Framtíðin fyrsta félagið á Íslandi sem mótar starfsemi sína með þessum hætti.

„Framtíðin er kvikt fyrirtæki sem getur brugðist hratt við eftirspurn. Við störfum eingöngu á netinu, erum með litla yfirbyggingu og um margt ólík þeim lánastofnunum sem fólk hefur áður fengið að kynnast. Veiting námslána hefur gengið vel hjá Framtíðinni og eru lántakendur almennt ánægðir með þjónustuna. Það liggur því beint við að veita aðrar tegundir lána. Þróunin á lánamörkuðum erlendis er hröð, nýir aðilar eru að festa sig sessi og það er ekki ólíklegt að markaðurinn hér á landi muni þróast í sömu átt. Við teljum að aukin samkeppni sé af hinu góða fyrir neytendur,“ segir Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar.

Framtíðin lánasjóður hf. er skráð sem lánveitandi hjá Fjármálaeftirlitinu sem heimilar félaginu að veita fasteignalán. Framtíðin er í eigu sjóðs í stýringu hjá GAMMA Capital Management hf. Um er að ræða fagfjárfestasjóð sem er fjármagnaður af fjölbreyttum hópi fagfjárfesta, bæði einstaklingum og stofnanafjárfestum.

Framtíðin er nýr námslánasjóður

18. febrúar 2015

Fram­tíðin er nýr náms­lána­sjóður sem hóf göngu sína í dag og veitir háskóla­nemum bæði fram­færslu- og skóla­gjalda­lán. Þetta kemur fram í til­kynn­ingu frá Fram­tíð­inni. Fram­tíðin er fjár­mögnuð í gegnum skulda­bréfa­sjóði sem eru í stýr­ingu hjá fjár­mála­fyr­ir­tæk­inu GAMMA.

Að baki skulda­bréfa­sjóð­unum standa stofn­ana­fjár­festar eins og líf­eyr­is­sjóðir og trygg­inga­fé­lög, eigna­stýr­ingar og almennir fjár­fest­ar. Hámarks­lán er þrettán millj­ón­ir, en lág­markið 500 þús­und, en og end­ur­greiðslu­tím­inn er tólf ár. Byrjað er að greiða lánin til baka einu ári eftir að námi er lok­ið. Allir náms­menn sem ætla í háskóla­nám á Íslandi eða erlendis geta sótt um náms­lán hjá Fram­tíð­inni. Einnig er starfs­nám, end­ur­menntun og nám með vinnu á Íslandi láns­hæft, að því er fram kemur í til­kynn­ingu. Fram­tíðin mun bjóða upp á tvær teg­undir náms­lána, ann­ars vegar óverð­tryggð lán með breyti­legum vöxtum og hins vegar verð­tryggð lán með föstum vöxt­um. Sjóð­ur­inn áætlar að veita nokkur hund­ruð náms­mönnum lán á ári.

Verð­tryggðir fastir vextir 7,45% 6,45% Þetta eru sam­bæri­legir vextir og bjóð­ast við­skipta­vinum bank­anna til kaupa á bíl­um, en hámarks­end­ur­greiðslu­tími þeirra lána er sjö ár. Náms­menn sem eru með lán hjá LÍN, sem lánar náms­mönnum verð­tryggt til lengri tíma með nið­ur­greiddum kjörum af rík­is­sjóði, geta einnig sótt um lán hjá Fram­tíð­inni. „Hér er um við­bót­ar­val­kost að ræða fyrir þá sem þurfa að fjár­magna kostn­að­ar­samt nám, til dæmis erlend­is, eða hafa hug á að mennta sig frekar eftir nokkur ár á vinnu­mark­aði eða með­fram vinn­u,“ segir í til­kynn­ingu frá sjóðn­um. Hlíf Sturlu­dótt­ir, stjórn­ar­for­maður Fram­tíð­ar­inn­ar, segir að stofnun lána­sjóðs­ins fjölgi mögu­leikum náms­manna til að kosta nám sitt, hvort sem um er að ræða skjóla­gjöld eða hærri fram­færslu meðan á námi stend­ur. „Það er til hags­bóta fyrir ein­stak­ling­ana sjálfa að fjár­festa í menntun og um leið sam­fé­lagið allt enda eykst sam­keppn­is­hæfni Íslands með auk­inni mennt­un,“ segir hún í til­kynn­ingu.